Fyrirlestrar
Ég brenn fyrir forvarnar- og fræðslustarfi og hef ferðast vítt og breitt um landið með ýmis konar fræðsluerindi fyrir íþróttafélög og vinnustaði. Helstu viðfangsefni mín snúa að samskiptum, sjálfstrausti, kvíða, streitu og EKKO málum. EKKO stendur fyrir einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi. Mikilvægt er að skapa rými þar sem fólki líður vel og upplifir öryggi, hvort sem það er á vinnustað eða í íþróttafélagi.
Hægt er að aðlaga alla fyrirlestra að hverjum hóp fyrir sig, hvort sem um er að ræða þjálfarahóp, unga iðkendur, meistaraflokksiðkendur eða vinnustaði.
Ef þú vilt bóka fyrirlestur eða vilt vita meira getur þú smellt á „Senda fyrirspurn” hér fyrir neðan eða sent mér línu á ingavaldist@gmail.com
Frammistöðukvíði: „Hvað ef ég klúðra þessu?”
Kvíði er eðlilegt viðbragð við krefjandi aðstæðum, en þegar hann verður of mikill getur hann farið að trufla okkur og koma í veg fyrir að við getum gert það sem okkur finnst skemmtilegt eða staðið okkur þegar á reynir. Hér er farið yfir það hvað kvíði er, hvert er hlutverk hans og hvað við getum gert til að draga úr áhrifum hans á okkur.
Þessi fyrirlestur hentar vel fyrir íþróttafélög, iðkendur eða þjálfara, sem og fyrir vinnustaði.
Fyrirlesturinn er 60 mínútur að lengd. Ég get komið hvert á land sem er og býð einnig upp á fyrirlestra í gegnum fjarfundarbúnað ef þess er óskað.
Sjálfstraust: Mátturinn í jákvæðu sjálfstali
Við getum stundum verið okkar eigin verstu óvinir. Innri röddin okkar getur rifið okkur niður og gagnrýnt okkur, eða hjálpað okkur og byggt okkur upp. Jákvætt sjálfstal er lykilatriði í því að byggja upp sjálfstraust. Í þessum fyrirlestri kynnumst við sjálfstali og til þess að við getum betur tekist á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.
Þessi fyrirlestur hentar vel fyrir íþróttafélög og hægt er að aðlaga hann að öllum aldurshópum.
Samskipti í hóp: Jákvæð samskipti og EKKO fræðsla
Samskipti eru flókið fyrirbæri sem við erum alla ævi að reyna að ná tökum á. Í þessum fyrirlestri er farið yfir hvað einkennir jákvæð samskipti, hvað getum við gert til þess að reyna að breyta menningu innan hópa.
EKKO fræðsla (einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi) tekur fyrir hinn endann á samskiptum. Mikilvægt málefni fyrir alla vinnustaði og íþróttafélög sem vilja stuðla að heilbrigðri menningu í hópnum.