Um mig

Ég er með BSc gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og útskrifaðist úr klínískri sálfræði við Kaupmannahafnarháskóla með cand.psych. gráðu vorið 2022. Ég hef tileinkað mér hugræna atferlismeðferð (HAM) ásamt því að hafa setið námskeið um Acceptance and Commitment Therapy (ACT). Ég hef mikla reynslu af því að flytja fyrirlestra um hin ýmsu málefni. Á síðustu árum hef ég bæði flutt fyrirlestra á vinnustöðum, m.a. um jákvæð samskipti, streitu, andlega líðan og EKKO (einelti, áreitni og ofbeldi), en einnig fyrir landsliðsfólk í hópfimleikum, m.a. um sjálfstraust og kvíða.

Ég er með starfsleyfi frá Landlæknisembættinu til þess að starfa sem sálfræðingur og hægt er að fletta mér upp í starfsleyfaskrá embættisins.

Ég er meðlimur í Sálfræðingafélagi Íslands og starfa samkvæmt siðareglum sálfræðinga, en þær má lesa hér.

Menntun 

Meistaranám í klínískri sálfræði, Kaupmannahafnarháskóli, 2020-2022

Grunnnám í sálfræði, Háskóli Íslands, 2017-2020


Námskeið

Netnámskeið um Acceptance and Commitment Therapy (ACT), kennari Russ Harris, 2024

Sálgæsla og áfallahjálp - Samfylgd í kjölfar áfalla, Endurmenntun Háskóla Íslands, 2024

Orkustjórnun - leið til að fyrirbyggja streitu og auka vellíðan, Endurmenntun Háskóla Íslands, 2023

Fræðsla um streitu og núvitund gegn streitu, á vegum Félags sjálfstætt starfandi sálfræðinga, 2022

Building mental touchness, kennari Robert Weinberg, á vegum Sálfræðingafélags Íslands, 2018

Ásamt námskeiðum sem tengjast sálfræði hefur ég einnig setið og kennt fjölda námskeiða um fimleikaþjálfun, bæði hérlendis og erlendis.

Starfsreynsla

Sálfræðingur hjá Heil heilsumiðstöð, 2025-

Ég byrjaði með eigin rekstur undir þaki Heil heilsumiðstöðvar vorið 2025. Þar sinni ég einstaklingsviðtölum fyrir fullorðna og ungmenni. Ég tek bæði á móti fólki sem er að glíma við andlega vanlíðan og einnig íþróttafólki sem er að leita eftir leiðum til að styrkja andlegu hliðina. Ásamt viðtölunum er ég að flytja fyrirlestra fyrir íþróttafélög og vinnustaði um hin ýmsu málefni.

Sálfræðingur hjá Heilsugæslunni Hvammi, 2025-

Sumarið 2025 hóf ég störf hjá heilsugæslunni Hvammi sem sálfræðingur fullorðinna. Mín helstu verkefni þar eru að taka á móti fólki í viðtölum, ýmist í stuðningsviðtöl eða sálfræðimeðferðir.

Sálfræðingur hjá Vinnuvernd, 2022-2025

Hjá Vinnuvernd fékk ég að kljást við fjölbreytt verkefni. Þar má helst nefna einstaklingviðtöl, fyrirlestrar fyrir vinnustaði, leggja mat á andlega líðan í heilsufarsskoðunum, stuðningur við vinnustaði í kjölfar áfalla, ásamt fleiru. Hjá Vinnuvernd öðlaðist ég dýrmæta reynslu en ég fékk tækifæri til að vinna í þverfaglegu teymi lækna og hjúkrunarfræðinga. Ég fékk mikla reynslu af því að hitta fólk sem var að glíma við streitu, kulnun eða var komið í veikindaleyfi.

Fimleikaþjálfari hjá Stjörnunni, 2009-

Ég hef verið fimleikaþjálfari frá unga aldri og hef þjálfað í Stjörnunni síðan 2009, að undanskildum þeim tveimur árum sem ég var við nám í Kaupmannahöfn, en þá þjálfaði ég hjá fimleikafélaginu Hvidovre. Íþróttir hafa alla tíð spilað stórt hlutverk í mínu lífi og ég hef sinnt nánast öllum störfum innan hreyfingarinnar; iðkandi, þjálfari, landsliðsþjálfari, dómari, sjálfboðaliði og setið í stjórn Fimleikasambands Íslands sem varamaður. Ég þekki því af eigin raun hvernig það er að vera á kafi í íþróttum og hversu stórt hlutverk íþróttir spila í sjálfsmyndinni.

Fyrirlesari hjá Gymnastics Academy, 2020-2021

Hjá Gymnastics Academy var ég að flytja fyrirlestra um andlegu hliðina í íþróttum. Fyrirlestrarnir voru meðal annars um frammistöðukvíða, sjónmyndaþjálfun (e. visualisation) og markmiðasetningu.

Landsliðsþjálfari í hópfimleikum fyrir Fimleikasamband Íslands, 2016, 2018 og 2024

Í þrjú skipti hef ég verið valin til þess að þjálfa landslið fyrir Evrópumót fyrir Fimleikasamband Íslands. Ég hef bæði farið með drengjalið og blönduð lið (stúlkur og drengir) á Evrópumót til Slóveníu, Portúgal og Azerbaijan. Í þessum Evrópumóts-verkefnum sá ég um þjálfun gólfæfinga, ásamt því að vinna með teymunum að markmiðasetningu, skipulagi æfinga, einstaklingssamtölum við iðkendur, hópefli, að skapa liðsanda og fleira. Fyrir Evrópumótið 2024 var ég einnig með fyrirlestur um frammistöðukvíða fyrir unglingalandsliðin.

Sálfræðinemi hjá The Little White House, sálfræðistofa í Kaupmannahöfn, vor 2022

Ég var í 12 vikur í starfsnámi hjá The Little White House í Kaupmannahöfn sem hluti af meistaranáminu. Þar fékk ég að kynnast öllum hliðum þess að starfrækja sálfræðistofu, tók nokkra tugi sálfræðiviðtala við einstaklinga, kynntist hópmeðferð, fékk að fylgjast með parameðferðum ásamt því að fá handleiðslu frá sálfræðingum með áratuga reynslu í faginu.

Stuðningsfulltrúi á öryggis- og réttargeðdeild Landspítalans, sumrin 2019 og 2020

Með grunnnámi mínu í sálfræði vann ég tvö sumur á öryggis- og réttargeðdeild Landspítalans sem stuðningsfulltrúi. Þar fékk ég innsýn inn í starf geðdeilda Landspítalans og mitt hlutverk var að veita skjólstæðingum félagslegan stuðning og vera til staðar fyrir þau í þeirra daglega lífi á deildinni.